Montrachet Champagne héraðsins


Eftir Arnar Sigurðsson

Montrachet Champagne héraðsins - Sante.is

Nálægt miðaldaborginni Troyes, rís hæð upp úr sléttunni eins og eyja í sjó. Þetta er Montgueux (borið fram „Mon-gö“). Þetta litla svæði í Champagne héraði er stundum kallað ,,Krítareyjan". Á meðan nágrenni hennar geymir hefðbundnari jarðveg úr leir þá er Montgueux nánast einn stór krítarklettur.

Þessi hvíti jarðvegur virkar eins og náttúrulegur svampur fyrir vínviðinn. Hann dregur í sig vatn þegar rignir og miðlar því til plantnanna þegar sólin skín. Steinefni í jarðveginum gefa vínunum skerpu og seltu (e. salinity). 

Talandi um sól þá snýr hæðin þannig að hún er böðuð í sólskini nánast allan daginn. Þetta gerir það að verkum að Chardonnay þrúgan sem þarna ræðum ríkjum skapar vín sem eru í senn kraftmikil og bragðmikil og jafnvel exótísk með keim af ananas og aprikósum. Svæðið er oft nefnt Montrachet Champagne héraðsins.

Þessar tvær andstæður, steinefnarík sýran vegna jarðvegsins og exótísku eiginleikarnir sem sólríkjan skapar, gera kampavínin frá Montgueux einstök.

Lengst af var Montgueux vel geymt leyndarmál sem stóru kampavínshúsin nýttu til að gefa sínum blöndum fyllingu. Í dag eru metnaðarfullir smáframleiðendur líkt og Jacques Lassaigne og Michel Gonet að sýna heiminum hvað hægt er að gera þegar svæðið fær að njóta sín óblandað.

Kampavínin eru einfaldlega ljúffeng og aðgengileg en á sama tíma með sérstæðan karakter. Ef þú ert að leita að víni af þessu tagi, þá skaltu leita eftir nafninu Montgueux.



Í þessari grein

1 af 5