Vesper Martini og Gilda!
Í bókinni Casino Royale frá 1953 pantar James Bond sér drykk sem hann nefnir eftir Vesper Lynd, hinni dularfullu og svikulu konu sem stal hjarta hans. Uppskriftin er nákvæm og dálítið dramatísk - líkt og Bond sjálfur.
Bond: Dry Martini.
Þjónn: Oui Monsieur.
Bond: Wait... 3 measures of Gordons, 1 of Vodka, half a measure of Kina Lillet, Shake it over ice and then add a thin slice of lemon peel.
Þjónn: .......yes sir.
Ekki hrærður, heldur hristur. Af hverju? Jú, því Bond er of upptekinn við að bjarga heiminum til að bíða eftir því að drykkurinn hans blandist almennilega. Eða kannski vissi Ian Fleming, höfundurinn, bara ekkert um kokteila. Við látum það liggja á milli hluta.
Það sem gerir Vesper Martini áhugaverðan er ekki bara blandan af gini og vodka (sem er í raun bara leið til að hella í sig meira áfengi í einu), heldur notkunin á Kina Lillet. Þetta franska aperitífvín, með sínum beiska kínín-keim, gaf drykknum einstakt bragð.
Upphaflega var sem sagt notað Gordon's gin. En tímarnir breytast og mennirnir með. Til að lyfta drykknum upp á það plan sem nútíma sælkerar krefjast dugir ekkert minna en úrvals hráefni.
Við mælum með Tanqueray No. Ten. Það er gin sem svíkur engan og stendur vörð um karakter drykkjarins. En fyrir þá sem vilja prófa nýjungar og leika sér að bragðtónum er fátt meira spennandi en hið íslenska Mosa Gin sem hefur hvílt í portvínstunnum. Þessi íslenska framleiðsla gefur drykknum dýpt og karakter sem sjálfur 007 myndi eflaust kunna að meta.
En svo komum við að eilitlu vandamáli. Kina Lillet er ekki lengur til. Árið 1986 var uppskriftinni breytt, kínín-magnið minnkað og nafninu breytt í Lillet Blanc. Þetta er mildari og sætari útgáfa, sem þýðir að Vesper Martini sem þú pantar í dag er ekki jafn beisk og sú sem Bond pantar í spilavítinu.
Það er viss kaldhæðni fólgin í því að drykkurinn sem Bond nefnir eftir sinni einu sönnu ást, Vesper Lynd, er jafn beiskur og endalok þeirra. Þá er það kannski viðeigandi að nútímaútgáfan af drykknum er ekki alveg eins og sú upprunalega, rétt eins og minningin um glataða ást gefur sögunni yfirleitt harla lítinn gaum.
Þannig að næst þegar þú ert á fínum bar og vilt heilla einhvern, pantaðu þá Vesper Martini. Þegar barþjónninn spyr hvort Lillet Blanc sé í lagi, geturðu kinkað kolli af kunnáttu og sagt: „Auðvitað, þótt maður sakni nú alltaf biturleikans í Kina Lillet.“
La Gilda!
Sterkur drykkur krefst þess að borinn sé fram með honum verðugur biti - eitthvað sem sker í gegnum styrkinn í alkóhólinu. Í San Sebastián tíðkast að bera fram svokölluð "pintxos“ og þar ber einn lítill biti höfuð og herðar yfir aðra í þessu samhengi: Gilda.
Þetta er einfalt spjót, en galdurinn liggur alfarið í gæðum hráefnisins.
- Ansjósurnar: Hjartað í réttinum. Hér dugir ekkert hálfkák. Við mælum með Angelachu ansjósum. Þær eru handunnar af alúð og lausar við óþarfa seltu og þurrk sem einkennir ódýrari vörur. Þessar bráðna á tungunni eins og smjör.
- Ólífurnar: Best fer á því að nota bragðmiklar gæðaólífur. Vörumerkið Olifa hefur reynst vel og fæst í verslunum Krónunnar en fyrir þá sem vilja gera sér sérstaka ferð er úrvalið í sælkeraversluninni Hyalin eða Melabúðinni ávallt til fyrirmyndar.
- Piparinn: Mildur, súrsaður pipar (t.d. guindilla) setur punktinn yfir i-ið með hæfilegri sýru. Okkur er ekki kunnugt um að þetta hráefni sé til hér á landi en við óskum eftir ábendingum frá lesendum Smakklands!
Þræðið eina ólífu, eina samanbrotna Angelachu-ansjósu og einn pipar (ef þið finnið hann) upp á tannstöngul. Berið fram með ísköldum Vesper Martini. Seltan úr fiskinum og fitan úr ólífunni mynda fullkomið jafnvægi á móti sterku gininu og sætum keimnum af Lillet aperitífnum.

