Gin og púrtvín? Jólakokteill á nýju plani
Á aðventunni færist hiti í leikinn og nú þegar einungis tæpar tvær vikur eru til jóla eru landsmenn í óða önn við að skipuleggja allt sem skipuleggja þarf. Fægja silfrið, viðra motturnar, hengja upp rjúpurnar og kaupa inn nauðsynjavörur. Margir leggja leið sína í Santé og upplifa þar hátíðarstemningu á meðan jólavínin eru valin.
Nýverið kynntum við til leiks elsta púrtvínsframleiðanda heims, Kopke, og loks er skipið með vistirnar komið til hafnar. Líkt og fjallað hefur verið um hér á Smakklandi er púrtvínið ómissandi hluti aðfangadagskvölds hjá mörgum.
En einhverjir kunna að vilja breyta til eða taka upp púrtvínshefðina með breyttu sniði.
Í hanastélsbókinni The Savoy Coctail Book eftir Harry Craddock, sem kom út árið 1930, er uppskrift að kokteil sem heitir Princeton. Kokteillinn var fundinn upp fyrir bannárin í Bandaríkjunum og var sérstaklega vinsæll meðal nemenda við Princeton háskóla.
Í honum var gin, púrtvín og orange bitters. Hráefnunum var hrært vel saman, sigtað í kokteilglas og sítrónusneið sett út í.
Nú, nærri öld síðar, höfum við útfært þennan kokteil á afar sérstakan máta og óhætt er að segja að hann eigi engan sinn líkan á byggðu bóli. Við notum nefnilega gin frá Mosa sem hefur fengið að þroskast á púrtvínstunnu og Kopke púrtvín. Með því að nota gin sem hefur legið á púrtvínstunnu búum við til fullkomna hringrás bragðtegunda en grundvöllurinn er meira en 100 ára gömul kokteiluppskrift. Við bindum vonir við að kokteillinn muni festast við þjóðarsálina líkt og mosi á hraun.
Þetta er Princeton-Mosi.
Hráefni:
- 4 cl Mosa Gin (Port Cask)
- 3 cl Ruby Púrtvín
- 3 cl Nýkreistur sítrónusafi
- 1,5 cl Hlynsíróp (Maple Syrup)
- Rósmaríngrein
- 1 eggjahvíta (valfrjálst - sjá hér að neðan)
Aðferðin:
- Settu öll hráefnin í hristara.
- Með eggi: Hristu án klaka í 10 sekúndur, bættu svo klökum við og hristu aftur.
- Án eggs: Settu klaka strax út í og hristu vel þar til ískalt.
- Sigtaðu í fallegt glas (helst á fæti).
- Skraut: Rósmarín-grein (kveiktu í endanum á henni til að fá ilm af brenndu barri).
