Þeir sem enginn tekur eftir skrifa söguna: Parísarsmakkið 1976


Eftir Elías Blöndal Guðjónsson

Þeir sem enginn tekur eftir skrifa söguna: Parísarsmakkið 1976 - Sante.is

Fyrir tæpum 50 árum var haldinn viðburður sem átti eftir að breyta vínheiminum. Þann 24. maí 1976 skipulagði breski vínkaupmaðurinn Steven Spurrier blindsmökkun í París þar sem frönskum vínum var stillt upp gegn þá óþekktum keppinautum frá Kaliforníu. Þetta var The Judgement of Paris eða Parísarsmökkunin 1976.

Það sem fáir vita er að Spurrier skipulagði viðburðinn sem markaðsbrellu fyrir agnarsmáa vínbúð sína í París - við Place d’Madelein.

Óvæntur sigur

Enginn bjóst við niðurstöðunum - allra síst frönsku dómararnir sjálfir. Í báðum flokkum stóðu amerísk vín uppi sem sigurvegarar:

  • Hvítvín: Chateau Montelena 1973 Chardonnay
  • Rauðvín: Stag's Leap Wine Cellars 1973 Cabernet Sauvignon

Í flokki hvítvína náðu amerísk vín 6 af 10 efstu sætunum, en í rauðvínsflokki voru þau með 5 af 10 efstu sætunum. Meðal þeirra var hið sögufræga Heitz Wine Cellars Martha's Vineyard 1970, sem lenti í 7. sæti.

Athyglisvert er að einungis þrír af ellefu dómurum settu Stag's Leap Wine Cellars efst á sinn lista, en þegar stigin voru talin saman var það engu að síður með hæstu meðaleinkunn, 0,17 stigum á undan Chateau Mouton Rothschild. Frönsku vínin fengu reyndar að meðaltali 12,28 stig á móti 10,70 stigum amerísku vínanna.

Blóðinu kyngt

Það sem gerir söguna enn áhugaverðari eru viðbrögð dómaranna. Odile Kahn, ein af dómurunum og þáverandi ritstjóri hjá La Revue du Vin de France, reyndi að fá að breyta einkunnagjöf sinni þegar hún uppgötvaði að hún hafði gefið amerísku víni hæstu einkunn. ,,Þetta er ómögulegt," á hún að hafa sagt, ,,ég þekki þessi frönsku vín!"

Blaðamaður TIME Magazine, George Taber, var eini blaðamaðurinn sem mætti á viðburðinn. Hann skráði niður ummæli dómaranna á meðan á smakkinu stóð.

,,Ah, aftur til Frakklands!" hrópaði Raymond Oliver þegar hann smakkaði Chardonnay frá Napa árgerð 1972.

,,Þetta er augljóslega Kalifornía. Það hefur engan ilm," sagði annar dómari - eftir að hafa smakkað Batard-Montrachet 1973.

Christian Vanneque, annar dómari, viðurkenndi síðar: "Við vorum allir sannfærðir um að vínin væru frönsk. Við trúðum því ekki að Kalifornía gæti framleitt vín á þessu stigi."

Meðal dómara var einnig hinn frægi Aubert de Villaine frá Domaine de la Romanée-Conti.

Vínheiminum bylt

Fram að þessum örlagaríka degi höfðu frönsk vínin setið ein að hásætinu í vínheiminum. Kaliforníuvín voru í besta falli álitin áhugaverð tilraun. En á örfáum klukkustundum í París varð bylting.

George M. Taber frá TIME Magazine, var eini blaðamaðurinn sem mætti á viðburðinn, var næstum því hættur við að mæta, því þetta þótti fyrirfram afar óáhugavert. En ef Taber hefði ekki verið viðstaddur hefði heimsbyggðin kannski aldrei frétt af niðurstöðunum.

Franska vínelítan var svo reið við Spurrier, skipuleggjanda viðburðarins, að honum var slaufað af franska vínheiminum. Margir neituðu að selja honum vín í vínbúðina í kjölfarið. Aubert de Villaine frá Domaine de la Romanée-Conti, refsaði Spurrier með því að banna honum aðgang að smökkunum í heilt ár.

Smakkið endurtekið

Það sem gerir sigur Stag's Leap Wine Cellars sérstaklega merkilegan er að víngerðarmaðurinn Warren Winiarski hafði verið kennari í stjórnmálafræði áður en hann sneri sér að víngerð. Rauðvínið sem sigraði var aðeins þriðji árgangur hans af Cabernet Sauvignon. Nýliðinn sigraði mestu snillingana í Frakklandi.

Þegar smakkið var endurtekið þrjátíu árum síðar, árið 2006, stóðu amerísku vínin sig enn betur. Í rauðvínsflokki höfnuðu þau í efstu fimm sætunum. Vínin höfðu jafnvel aukið forskot sitt.

Í dag standa mörg þessara amerísku vína sem tóku þátt í keppninni sem tákn um byltinguna í vínheiminum, þar á meðal Heitz Martha's Vineyard sem enn þann dag í dag er talið eitt af merkustu Cabernet Sauvignon vínum Kaliforníu. Það vín, ásamt fleirum, verða smökkuð á stórviðburði í rannsóknarsetri Santé þann 23. apríl næstkomandi.

Parísarsmakkið minnir okkur á að einstaka sinnum eru það þeir sem enginn tekur eftir sem skrifa söguna.



Í þessari grein