Skrepptu fyrir mig út í apótek

Matarhátíðin Food & Fun hefur um árabil verið vinsæl og ef til vill hefur hún aldrei verið vinsælli en einmitt nú. Greinarhöfundi ásamt Arnari Sigurðssyni var boðið að heimsækja tvo af okkar uppáhalds veitingastöðum til að kynnast því sem þar var í boði.


Eftir Elías Blöndal Guðjónsson

Skrepptu fyrir mig út í apótek - Sante.is

Tveir seðlar teknir

Til er orðatiltæki úr hótelheiminum – að taka eina hurð – sem þýðir að drekka allt úr minibar hótelherbergis. Uppruni orðatiltækisins er rakinn til Hótel Sögu þegar það kom stundum upp að allt úr hurðinni á minibarnum var búið og Mímisbar hafði lokað. Þá þurftu menn að bregða á það ráð að panta sér annað herbergi til að fá meira vín – sem sagt að taka eina hurð í viðbót. Á Food & Fun tókum við Arnar hins vegar tvo matseðla og varð okkur sannarlega ekki um sel þegar hver rétturinn á fætur öðrum var borinn á borð.

Bæði Sushi Social og Apótek eru huggulegir staðir með notalegu umhverfi en á sama tíma myndast þar mikil stemning þegar setið er á hverju borði.

Sushi Social

Á Sushi Social er alla jafna boðið upp á láréttan samruna japanskrar og suður-amerískrar matargerðar. Þar var gestakokkurinn Mattia Ricci, yfirkokkur á veitingastaðnum Sexy Fish í London. Ricci sækir innblástur í æskuminningar um eldamennsku með ömmum sínum.

Á þessum seðli var bláuggatúnfiskur sem var sérstaklega flogið inn fyrir hátíðina. Reyndar flýgur Sushi Social reglulega inn hágæða fiskmeti erlendis frá til notkunar á staðnum. Við höfum þegar mælt okkur mót við Nuno síðar til að vera viðstaddir þegar næsta sending kemur.

Vert er að nefna sérstaklega shimeji sveppina sem bornir voru fram með dádýrinu. Þessir fíngerðu, viðkvæmu sveppir eru þekktir fyrir sitt sérstaka bragð sem minnir á skelfisk og eru meðal fínustu sælkerasveppa. Wakamono ferskjurnar sem fylgdu þessum rétti voru líklega hápunktur seðilsins, en þessar sjaldgæfu japönsku ferskjur eru handtíndar á ákveðnum árstíma. Kílóverðið á þessum ferskjum getur farið yfir 15.000 krónur, en sæta bragðið sem þær gefa frá sér er einstakt.

Í fordrykk fengum við okkur Asahi bjór, sem kemur frá Santé! Þessi japanski bjór er merkilegur fyrir þær sakir að hann hækkar ekki blóðsykurinn og hefur landlæknir jafnvel mælt sérstaklega með neyslu þessa japanska undurs vegna heilsusamlegra eiginleika hans.

Apótek

Apótek Kitchen + Bar er rótgróinn veitingastaður staðsettur á einu merkilegasta horni Reykjavíkur. Á horninu eru ekki lengur seld dagblöð í í lausasölu en húsakosturinn geymir skemmtilega sögu. Húsið var hannað af Guðjóni Samúelssyni, þáverandi húsameistara ríkisins, sem einnig hannaði margar þekktar byggingar á Íslandi, þar á meðal Hallgrímskirkju.

Eins og nafn veitingastaðarins gefur til kynna var eitt sinn rekið apótek í húsinu, Reykjavíkur Apótek. Þetta var helsta apótek bæjarins um langa hríð. Nú eru ekki lengur seld lyf þarna en vitaskuld annars konar meðul. Matseðillinn er blanda af íslenskri og evrópskri matargerð með nokkurs konar argentískum grill-áhrifum.

Gestakokkur á Apóteki var hin mexíkóska Ana Dolores González meðeigandi og yfirkokkur á Esquina Común í Mexíkóborg. Hún hefur þar umbreytt hógværri veitingastofu í Michelin veitingastað sem blandar saman mexíkóskum og spænskum matarhefðum.

Tígrisrækjan á matseðli González var líklega besti rétturinn sem við smökkuðum.

Brögðin á seðlinum voru margslungin og ljúffengleikinn í fyrirrúmi, þótt við hefðum kosið að hafa sósurnar við hliðina til að geta bragðað kjötið án þeirra. Við erum fylgismenn hreinleika í matargerð hefði það verið áhugaverðara fyrir okkur.

Drykkir

Coca Cola á Íslandi hefur verið aðalbakhjarl Food and Fun um árabil og þess vegna voru einungis vín frá því fyrirtæki í boði sem svokölluð pörun með matseðlunum. Við smökkuðum þau næstum öll og má segja að sum þeirra hafi verið alveg viðunandi, kannski sérstaklega vínin frá Franck Millet. Bæði Sushi Social og Apótek selja vitaskuld einnig vín frá Santé.

Helmingur fer í laun

Veitingastaðir Nuno Alexandre Bentim Servo og Bento Costa Guerreiro voru nýverið efni ítarlegrar umfjöllunar í Frjálsri verslun Viðskiptablaðsins.

Samkvæmt umfjöllun blaðsins eru Nuno og Bento meðal stórtækustu veitingamanna Reykjavíkur, meðal annars með rekstur í heillri húsalengju við Hafnarstræti. Þeir eru stærstu eigendur sex veitingastaða í miðbænum: Apótek Sushi Social, Tapas barnum, Fjallkonunni, Sæta svíninu og Tres locos. Þá eru þeir einnig meðal eigenda barsins Tipsý og Djúsí Sushi í Pósthús Mathöll.

Staðirnir þeirra sex veltu alls 4,1 milljarði króna árið 2023 og Apótek var langstærstur með hátt í 1,2 milljarða króna veltu.

Athyglisvert er að þrátt fyrir mikla veltu er hagnaðarhlutfallið aðeins 2,1% að meðaltali, sem endurspeglar hversu krefjandi veitingabransinn er. Þetta lága hagnaðarhlutfall undirstrikar raunveruleikann sem blasir við rekstraraðilum í veitingageiranum. Nærri helmingur af öllum tekjum staðanna fer í laun og launatengd gjöld, sem verkalýðshreyfingunni þykir vafalaust enn of lítið.

Velgengni Nuno og Bento byggist auðvitað á því að þeir eru sjálfir með puttana í öllu. Tapas barinn var stofnaður árið 2000 sem segir okkur að þeir hafa staðið af sér ýmsar sveiflur í aldarfjórðung.



Í þessari grein