Veiðigjöld á innfluttan fisk?
Þegar ég opna rósavínsflöskuna þá rennur upp fyrir mér að hið opinbera hefur þá þegar hirt 35% af innkaupsverðinu. En hingað til hefur ríkinu ekki tekist að leggja veiðigjöld á innfluttan fisk. En eins og við vitum er hugmyndaauðgi hins opinbera hvað skattheimtu varðar óþrjótandi.
Í fundarstofunum við Arnarhvol heyrist: ,,Hvað með ansjósur? Eru þær ekki líka fiskur? Þær eru teknar úr sjónum, ekki satt? Jafnvel þó að það sé ekki íslenskur sjór?"
Næsti kafli í veiðigjaldaumræðunni gæti heitið ,,Lög um veiðigjald á innfluttar sjávarafurðir sem gætu hafa verið veiddar í íslenskri lögsögu ef aðstæður hefðu verið öðruvísi."
Rósavín og bouqerones
Bouqerones eru verkaðar í hvítu vínediki sem gefur þeim mjúkt og sýrukennt bragð. Hvíti litur ansjósanna kemur frá edikmeðferðinni. Sýran ,,eldar" fiskinn og breytir honum úr gráum lit í hvítan, svipað og gerist þegar fiskur er eldaður. Rósavínið er ferskt og þurrt en bætir við ávaxta og blóma tónum. Saltið í ansjósunum dregur út ávöxtinn í víninu á meðan sýran í því tónar vel við olífuolíuna sem bouqerones eru geymdar í.
Það er eins og rósavín og bouqerones hafi verið búið til fyrir hvort annað - ólíkt skattheimtu og verðmætasköpun.
