Eldrauð framtíð
Að tengja saman myndlist og fordrykki kann að hljóma sem óvenjulegur upptaktur en þegar ítalskur andi er annars vegar verður slíkt ekki umflúið. Þar í landi eru listin og lífið nánar samofin en víða annars staðar.
Lítum á auglýsingaplakat eitt, sem listamaðurinn Fortunato Depero teiknaði fyrir hið kunna fyrirtæki Campari árið 1926. Þar situr kynleg vera og heldur á glasi í formi tímaglass sem táknar þá list að njóta stundarinnar á meðan sódavatnsflaska svífur og blandar drykkinn af yfirnáttúrulegum krafti. Allt er þar á fleygiferð sem lýsir vel þeim krafti og framtíðartrú sem einkenndi hina ítölsku framúrstefnumenn en Depero var í fararbroddi þeirra.
Depero og hans líkir höfnuðu hinu gamla og þráðu nýja tíma. Listin átti að þeirra mati ekki að vera innilokuð á söfnum heldur líka hluti af hinu daglega lífi.
Þessi sýn náði svo hápunkti sínum í hönnunarverki sex árum síðar. Árið 1932 var Depero falið að hanna umbúðir fyrir nýjung frá Campari; fordrykk sem var seldur í stökum neyslueiningum. Hann tók hugmyndina úr myndlistinni og færði hana yfir í veruleikann. Hann hannaði flösku sem var í senn eins og kokteilglas á hvolfi en líka eftirmynd af keilulaga straumi sódavatnsins sem sést í málverkinu. Hér var kominn hlutur sem var í senn nytjahlutur og listaverk. Tákn um nýjan og hraðari heim þar sem menn gátu notið sinna veiga hvar og hvenær sem var.
Þetta leiðir hugann að okkar eigin tímum og þeirri spurningu sem brennur á mörgum. Þegar degi hallar og maður sest niður með þessa litlu keilulaga flösku. Hvaða framtíð er það sem við sjáum í gegnum þennan eldrauða bjarma? Sér maður framtíð þar sem frelsið sigrar eða sér maður framtíð þar sem embættismenn velja hvaða vín þú drekkur? Svarið er vitaskuld frelsi og framtíð þar sem fólk nýtur lífsins á eigin forsendum. Depero hannaði ekki aðeins flösku, hann hannaði tákn um frelsi. Hann skóp lítinn, fjöldaframleiddan listmun sem minnir okkur á að jafnvel í heimi tækninnar er það hin persónulega ánægja sem öllu skiptir.
Sú framtíð sem birtist í gegnum glas af Campari Soda er því sannarlega eldrauð. Hún ber lit ástríðu og orku og það er einmitt úr slíkum krafti sem hið sanna frelsi sprettur.

