Veitingahúsarýni / Lítið herbergi en stórar hugmyndir


Eftir Elías Blöndal Guðjónsson

Veitingahúsarýni / Lítið herbergi en stórar hugmyndir - Sante.is

Hosiló þýðir ,,lítið herbergi" en þetta nafn er fullkomlega lýsandi fyrir þennan litla stað á horni Ingólfsstrætis og Hverfisgötu sem virðist klemmdur milli bygginga. En þegar veggirnir þrengja að opnast hugurinn og þá verða til stærstu hugmyndirnar. 

Andrúmsloftið er strax heillandi þegar maður stígur inn. Það er eitthvað óvenjulega notalegt við þetta rými sem á sér fáar hliðstæður í borginni. Hér koma saman Íslendingar og ferðamenn í bland sem er óvenjulegt fyrir veitingastað í miðborg Reykjavíkur. Trapísulaga glugginn sem tekur á móti manni brýtur gegn hefðbundnum línum og skapar spennandi sjónræna vídd rétt eins og matseðilinn sem gengur gegn hefðbundnum væntingum.

Matseðillinn breytist vikulega. Hann er markaðsdrifinn og endurspeglar það besta sem völ er á, á hverjum tíma. Þegar við heimsóttum Hosiló í gær voru á boðstólunum tveir spennandi forréttir og þrír aðalréttir.

Forréttir

Eringi sveppa medalíur / 3.200 kr. Eringi sveppir eru stórir ostrusveppir með þykkum stöngli og áferð sem minnir á kjöt. Þessi forréttur var vel útfærður með blómkáli, kantalópu og sítrónu sem sköpuðu ferskt og létt jafnvægi. Sveppirnir voru í brennidepli og bragðið var einstakt - líklega hápunktur kvöldsins strax í upphafi.

Vitello tonnato / 3.200 kr. Klassískur ítalskur réttur með kálfakjöti, túnfiski og kapers. Vel útfærður og snyrtilega fram settur þó að þetta sé frekar hefðbundinn réttur. Mjög bragðgóður en kom ekki sérstaklega á óvart.

Aðalréttir

Bakað eggaldin / 5.900 kr. Mjög góður réttur með grænum aspas, furuhnetum og saffrani. Saffranið gaf fallegan gylltan lit og dýpt í bragðið sem passaði vel við eggaldinið. Það er algjör list að geta gert grænmetisrétti á þessu kaliberi.

Steinbítur Huá yú pián / 7.200 kr. Huá yú pián (滑鱼片) þýðir líklega ,,sleipur fiskur" þótt ég hafi verið eilitlum vandræðum með að rannsaka þetta. Heitið vísar til sérstakrar kínverskrar aðferðar þar sem fiskurinn er húðaður með eggjahvítu og sterkju og síðan eldaður við lágan hita til að gera hann einstaklega mjúkan og sleipan. Steinbíturinn var ferskur og vel eldaður með þessari aðferð. Heimagerðu breiðu núðlurnar, engifer og soja sköpuðu góða asíska bragðheild. Áhugaverð og vel heppnuð útfærsla að sjá íslenskan fisk fá þessa hefðbundnu kínversku meðferð.

Confit de canard / 8.600 kr. Andalæri með ferskjum, Gorgonzola og möndlum. Þetta var mjög vel útfærður réttur - andakjötið var mjúkt og bragðmikið, og samblandið af seltunni í Gorgonzola ostinum og sætum ferskjunum var spennandi. Vel heppnuð blanda og ég mun líklega framvegis alltaf borða Confit de canard með Gorgonzola.

Vínið

Það má ekki gleyma að nefna vínið á Hosiló. Hér er hægt að fá vín frá Santé sem er auðvitað ekki síður mikilvægt en maturinn sjálfur. Fyrir ofurvandláta er hægt að koma með eigið vín og greiða tappagjald sem nemur kr. 7.000.

Við tókum með okkur 2020 Bachelet-Monnot Puligny-Montrachet 1er Cru Les Referts og 2022 Ridge Pagani Ranch Zinfandel. Á staðnum keyptum við 2022 Domaine Humbert Gevrey-Chambertin Vieilles Vignes. 

Michelin

Nýverið náði Hosiló þeim áfanga að komast inn í Michelin handbókina fyrir Norðurlönd með stöðuna "Recommended".

Að komast inn í Michelin handbókina, hvort sem það er með stjörnu eða meðmælum, er virtasta viðurkenning sem veitingastaður getur fengið í veitingaheiminum.

Á Íslandi eru nú níu staðir í Michelin handbókinni - þrír með stjörnur (Dill, ÓX, Moss) og sex með "Recommended" stöðu. Fyrir lítinn stað eins og Hosiló, sem er rekinn af þremur vinum í ,,litlu herbergi" á Hverfisgötu, er þetta ótrúleg viðurkenning á þeirri vinnu og ástríðu sem hefur verið lögð í að skapa eitthvað sérstakt.

Niðurstaða

Hosiló sannar að stærðin skiptir ekki máli - þetta ,,litla herbergi" býður upp á stórkostlega matarupplifun.

Hosiló
Hverfisgötu 12
101 Reykjavík
@hosilo_rvk
793-6666



Í þessari grein