Páskaegg að okkar skapi

Styrjuhrognin eru komin aftur.
Á meðan aðrir fylla hillur sínar með sykruðum súkkulaðieggjum, bjóðum við upp á þessi náttúrulegu egg styrjunnar sem gleðja bragðlaukana á allt annan og betri hátt. Styrjuhrogn eru okkar páskaegg. Hrognin innihalda allt að 15 mismunandi bragðblæbrigði, líkt og fjölþættustu vín, auk þess að vera rík af vítamínum A, D, E, járni, natríum og Omega-3 fitusýrum.
Þessi páskaegg náttúrunnar njóta sín á ristuðu brioche-brauði, með eggjahræru, hörpuskel eða sýrðum rjóma.
Baeriskaya hrognin eru oftast frekar dökkgrá eða svartleit að lit með smáum kornum. Þau eru þekkt fyrir sitt milda bragð - jafnvel rjómakennt bragð sem hverfur á tungunni. Miðað við aðrar tegundir styrjuhrogna eru Baeriskaya hrognin oft talin góður millivegur - ekki eins sterk og Beluga hrognin en meira áberandi en hrognin úr Transmontanus.
Baeriskaya eru vinsæl meðal matreiðslumanna sem leita að háum verðgildisstuðli þegar kemur að styrjuhrognum.
Santé minnist með gleði þegar Kastrup reiddi fram krabbasalat með styrjuhrognum, svokallaða ,,auðmannasnittu" (sjá mynd sem fylgir frétt). Við skorum nú á hinn geðþekka vert, Jón Mýrdal, að setja þessa sneið aftur á seðil án frekari tafa. Við viljum fá alvöru páskaegg á Kastrup.