Orð eru til alls fyrst - Listsýning Hönnu frá Jaðri í Santé!

Fyrsta listsýningin af mörgum var opnuð í höfuðstöðvum Santé í Skeifunni í gær við góðar undirtektir. Gestir á öllum aldri mættu til að berja augum verk Hönnu Jónsdóttur (Hönnu frá Jaðri) sem nú prýða veggi verslunarinnar. Þegar stigið er inn í Santé í Skeifunni blasir við óvænt sjónarspil þar sem orð og myndir tvinnast saman í margslungnum verkunum. Sýningin, sem er fyrsta sinnar tegundar á þessum vettvangi, markar upphaf metnaðarfullrar liststefnu Santé!
Orð eru til alls fyrst og einmitt þannig hófst samstarfið við Hönnu sem tók jákvætt í ósk okkar um að sýna verk sín í húsakynnum Santé. Það var gleðiefni að finna það traust sem hún sýndi fyrirtækinu með þessu samstarfi.
Verkin á sýningunni eru unnin með olíu- og akríllitum á fundið efni, þar sem Hanna vinnur með tungumálið á frumlegan hátt. Hanna vinnur markvisst með viljandi stafsetningarvillur og minni háttar umsnúning á orðum til að skapa óvænt hugrenningatengsl. Nálgun hennar einkennist af nýtni og útsjónarsemi, sem hún segir vera í takt við uppeldið í Suðursveit, þar sem „það var talið aulaskapur að líta ekki í eigin barm eða leita langt yfir skammt."
Tungumálið er grunnstoð mannlegra samskipta og íslenskan sérstaklega mikilvæg okkur sem hér búum. Þetta mikilvægi endurspeglast í verkum Hönnu, þar sem orð og merking þeirra leikur stórt hlutverk. Á opnunina mætti meðal annars hópur fólks í íslenskunámi, sem nýtti tækifærið til að kynnast tungumálinu í nýju samhengi. Vart er hægt að hugsa sér betri vettvang fyrir tungumálakennslu en einmitt listsýningu sem þessa, þar sem orð birtast í margvíslegu samhengi og geta haft mismunandi þýðingu eftir aðstæðum.
Verk Hönnu vekja margvísleg hughrif. Sum verkin kveikja hlátur með óvæntum orðaleikjum, önnur kalla fram eftirþanka með því að setja kunnugleg orð í nýtt samhengi. Það sem heillar við verk Hönnu er hvernig hún fangar fjölbreytileika tungumálsins í áþreifanlegu formi. Hanna nýtir margræðni íslenskra orða og orðaleiki til að vekja bæði bros og hugsun. Þó íslenskan sé ekki eina tungumálið sem býður upp á slíkan leik með orð, þá hefur hún sérstöðu vegna beygingakerfis, samsettra orða og málsögu sem Hanna nýtir af mikilli kunnáttu.
Á tímum þegar PISA-kannanir sýna versnandi árangur íslenskra ungmenna í lesskilningi, gegna listamenn eins og Hanna mikilvægu hlutverki við að byggja brú á milli tungumáls og upplifunar. Með verkum sínum skapar hún áhugaverðan vettvang til að kanna dýpt tungumálsins, langt umfram hina hefðbundnu „Ása sá lás" nálgun sem enn einkennir skólakerfið. Ungu gestirnir höfðu bæði gagn og gaman af því að rýna í verkin og velta fyrir sér þeim húmor og þeim tilfinningum sem þau vekja.
Sýningin stendur í einn mánuð og eru allir hvattir til þess að koma og njóta verkanna. Hægt er að fá frekari upplýsingar um verkin á staðnum eða beint frá Hönnu.
Orð eru vissulega til alls fyrst, en í höndum Hönnu verða þau að varanlegri listupplifun.

Hanna er með B.A.-gráðu frá deildinni Identity í Design Academy Eindhoven (2008), MA.ed í listkennslu frá LHÍ (2021) auk þess sem hún lauk tveimur árum í grafískri hönnun við LHÍ á árunum 2014-16. Hún hefur unnið að fjölbreyttum hönnunarverkefnum sjálfstætt sem og undir nafni Attikatta og Dyslextwhere, haldið fyrirlestra, staðið fyrir námskeiðum og sinnt sýningarstjórn. Undanfarin ár hefur hún sinnt kennslu í textíl, smíðum og myndlist meðfram því að reka sína vinnustofu.