90 ára gamall vínviður
Í þorpinu Flagey-Echezeaux, er að finna víngerð sem hefur verið í eigu sömu fjölskyldu frá upphafi. Domaine Desaunay-Bissey á rætur að rekja til samstarfs Bruno Desaunay og tengdaföður hans, Daniel Bissey, sem stofnuðu víngerðina árið 1975.

Í þorpinu Flagey-Echezeaux, er að finna víngerð sem hefur verið í eigu sömu fjölskyldu frá upphafi. Domaine Desaunay-Bissey á rætur að rekja til samstarfs Bruno Desaunay og tengdaföður hans, Daniel Bissey, sem stofnuðu víngerðina árið 1975.
Við heimsóttum Richard á síðasta ári, stuttu eftir að faðir hans, Bruno , lést. Sonur hans hafði þá tekið við rekstrinum og hafði fangið fullt af verkefnum. Hann gaf sér tíma til þess að leyfa okkur að smakka afrakstur 2022 árgangsins en einnig nokkur eldri vín.
Richard hefur þá sýn að hefðin sem faðir hans lagði grunn að, sé sú sem muni skila árangri. Bruno lagði áherslu á að nota gamlan vínvið og sem minnsta íhlutun. Minni uppskera er af gömlum plöntum, þær verða gamlar og lúnar líkt og mannfólkið. Vínviðurinn myndar færri klasa og minni ber. Þetta er þó kostur fyrir gæðin, því plantan beinir orku sinni að færri þrúgum á meðan djúpt rótakerfið nær í jarðefni og næringarefni sem yngri plöntur ná ekki til. Vínviðurinn á mörgum ekrum er mjög gamall, sumar plönturnar eru jafnvel yfir 80-100 ára. Í Grands-Echezeaux var vínviðurinn að stórum hluta gróðursettur upp úr 1928 og er því um eða yfir 90 ára gamall. Þessi gamli vínviður gefur af sér lítið en kraftmikið vín.
Vínviður er ræktaður á um 6 hekturum í Chambolle-Musigny, Nuits-Saint-Georges, Flagey-Echezeaux, Vosne-Romanée og Gevrey-Chambertin. Dreifing vínekranna um ólík þorp gerir Richard kleift að fanga fjölbreytt einkenni jarðvegsins.
Eins og háttar til um mörg víngerðarhús í Búrgúndí þá var lengst af stærstur hluti af uppskerunni seldur til annarra framleiðenda. Það var ekki fyrr en á allra síðustu árum sem vín Desaunay-Bissey hafa vakið verðskuldaða athygli.
Bruno Desaunay var ástríðufullur víngerðarmaður, hlaut uppeldi sitt á vínekrunum. Árið 2007 ákvað hann að hætta með öllu notkun illgresis- og skordýraeiturs á ekrunum. Síðan þá hefur lutte raisonnée – hófsamri lífræn ræktun – verið fylgt. Lutte raisonnée, sem þýðir ,,skynsamleg barátta” á frönsku, er nálgun í vínrækt þar sem notkun efna er stillt í algjört lágmark en ekki útilokuð líkt og í fullri lífrænni ræktun.
Ný og gömul vín koma snemmsumars
- Bourgogne Côte d’Or 2022 og 2021
- Gevrey-Chambertin 2021
- Nuits-Saint-Georges ‘Les Belles Croix’ 2021, 2017 og 2014
- Chambolle-Musigny 2021
- Vosne-Romanée 2022
- Vosne-Romanée 1er cru ‘Les Beaux Monts’ 2020
- Vosne-Romanée 1er cru ‘Les Rouges’ 2018
- Grands Echezeaux Grand Cru 2021 og 2022