Fara í efni
LIGNIER-MICHELOT

LIGNIER-MICHELOT

Einn af merkilegri sonum þorpsins Morey St. Denis er Virgile Lignier sem rekur samnefnt víngerðarhús Lignier-Michelot. Þorpið er staðsett á milli Chambolle-Musigny og Gevrey-Chambertin og því vitaskuld lítilsháttar rígur milli þorpsbúa um hver geri merkilegustu vínin. Virgile hinsvegar gerir vín úr ölllum þremur sem eiginlega sannar að öll eru þau best, bara með mismunandi blæbrigðum. 

Ef hægt er að setja út á vínin frá Lignier-Michelot, þá væri það helst hvað þau eru ljúffeng á unga aldri sem gerir að verkum að fáir njóta þeirra á hátindinum eftir 4-8 ár í geymslu. Hér sannast nefnilega reglan um að góð vín eru alltaf góð, sama hvort þau eru ung eða þroskuð. Hér er ný eik aldrei meira en 30% og heilknippi (þar sem stilkarnir eru gerjaðir með) notað í flestum tilfellum 70%-100%.

2021 árgangurinn gefur af sér að jafnaði ljósari og léttari vín sem eru aðgengileg ung. Á meðan birgðir endast má benda útsjónarsömum á að við eigum ennþá lítilræði eftir af 2020 árganginum sem gefur færi á áhugaverðu samanburðarsmakki þar sem sá árgangur er að mörgu leiti andstæðan við þann síðari.

Krúndjásn hússins eru auðvitað Grand Cru vínin Clos St. Denis og Clos de la Roche en rétt undir þeirri ekru er Faconnieres sem er skör lægra í goggunarröðinni ,,1er Cru" en ber hinni glögg merki í gæðum. Að flestra mati er Rue de la Vergy besta þorpsekran en við höfum þó í gegnum tíðina sveiflast í áliti milli þess víns og því sem kallað er ,,Vielles Vignes". Chambolle og Gevrey standa hinum svo ekkert að baki eins og dómar vínsérfræðinga bera vitni um.