Í hug fólksins koma jólin ekki fyrr en jólaskipið kemur til hafnar með vistir. Þannig er siglingin yfir hafið með Búrgúndarvínin og kampavínin hluti af fólkinu sjálfu, persónuleg fylgja þess.
Það er sérstök hátíð þegar jólaskipin koma. Þá er allt krökkt af fólki á bryggjunni, allir koma til að bjóða jólavínin velkomin og lúðrasveitin leikur jólasöngva.
Veðurfræðingar landsins, bæði menntaðir og ómenntaðir, keppast nú um að spá fyrir um hvort jólin verði hvít eða rauð og fylgir þessum vangaveltum óhjákvæmilega óvissustig. Santé er með lausnina á þessu vandamáli eins og svo mörgum öðrum en hjá okkur eru jólin bæði hvít og rauð.
Einn af merkilegri sonum þorpsins Morey St. Denis er Virgile Lignier sem rekur samnefnt víngerðarhús Lignier-Michelot. Þorpið er staðsett á milli Chambolle-Musigny og Gevrey-Chambertin og því vitaskuld lítilsháttar rígur milli þorpsbúa um hver geri merkilegustu vínin. Virgile hinsvegar gerir vín úr öllum þremur sem eiginlega sannar að öll eru þau best, bara með mismunandi blæbrigðum. Ef hægt er að setja út á vínin frá Lignier-Michelot, þá væri það helst hvað þau eru ljúffeng á unga aldri sem gerir að verkum að fáir njóta þeirra á hátindinum eftir 4-8 ár í geymslu. Hér sannast nefnilega reglan um að góð vín eru alltaf góð, sama hvort þau eru ung eða þroskuð. Hér er ný eik aldrei meira en 30% og heilknippi (þar sem stilkarnir eru gerjaðir með) notað í flestum tilfellum 70%-100%. 2021 árgangurinn gefur af sér að jafnaði ljósari og léttari vín sem eru aðgengileg ung. Á meðan birgðir endast má benda útsjónarsömum á að við eigum ennþá lítilræði eftir af 2020 árganginum sem gefur færi á áhugaverðu samanburðarsmakki þar sem sá árgangur er að mörgu leiti andstæðan við þann síðari.
Krúndjásn hússins eru auðvitað Grand Cru vínin Clos St. Denis og Clos de la Roche en rétt undir þeirri ekru er Faconnieres sem er skör lægra í goggunarröðinni ,,1er Cru" en ber hinni glögg merki í gæðum. Að flestra mati er Rue de la Vergy besta þorpsekran en við höfum þó í gegnum tíðina sveiflast í áliti milli þess víns og því sem kallað er ,,Vielles Vignes". Chambolle og Gevrey standa hinum svo ekkert að baki eins og dómar vínsérfræðinga bera vitni um.
Hendurnar á okkur hverfa inn í lófann á Aurelien Verdet þegar við heilsum honum í víngerðinni sem staðsett er í Arcenant. Hann er nýkominn af ekrunum þar sem honum finnst skemmtilegast að vera. Hann ræktar vínvið á ekrum í mörgum þorpum þar á meðal Nuits-Saint-Georges, Vosne-Romanée, Marsannay og Fixin.
Hann framleiðir svo tvö af mest seldu inngangsvínum Sante.is: Bourgogne Hautes-Côtes de Nuits Le Prieuré og Bourgogne Lutenière. Það síðarnefnda, sem er af ekru í Vosne-Romanée, hefur vakið verðskuldaða athygli, að hinu fyrrnefnda ólöstuðu. Þrátt fyrir að vera inngangsvín (bourgogne) má segja að það standi sig langt umfram sína flokkun – sannkölluð vörusvik í jákvæðum skilningi.
La Prieurée er heimaekra Verdet sem hefur verið lífrænt ræktuð síðan 1971 (sem þótti skrítið fyrirbæri í þá daga).
Nýjasti árgangurinn er alveg frábær, vínin einstaklega ljós að lit og aðgengileg.
Fagot-fjölskyldan hefur búið í þorpinu Corpeau, rétt við Chassagne-Montrachet, síðan 1860. Jean-Charles Fagot er af fimmtu kynslóð víngerðarmanna en hann tók við rekstrinum á tíunda áratugnum.
Auk þess að stunda vínrækt lærði Jean-Charles tónlist og starfaði við upptökur og sjónvarpsframleiðslu í París og Los Angeles áður en hann sneri aftur heim. Árið 1998 stofnaði hann veitingastaðinn Auberge de Vieux Vigneron, sem við reynum að snæða á í hverri Búrgúndíferð. Þar eru steikurnar grillaðar yfir opnum eldi í miðjum matsalnum. Ekki er vitað hvort byggingarfulltrúinn í Corpeau hafi tekið húsnæðið út.
Jean-Charles spilar tónlist í vínkjallaranum fyrir vínið sitt, einkum klassísk verk, meðan það þroskast á eikartunnum. Hann trúir því að tíðni tónlistarinnar hjálpi vínunum að anda betur og að hún auki gæði þeirra.
