Fara í efni
CONSERVAS ANGELACHU

CONSERVAS ANGELACHU

Josefa Angela García Garay, kölluð Angelachu, starfaði sem ung stúlka við fiskverkun í Santoña. Í lok 1930 gerðust hún og maður hennar, José, fiskkaupmenn í Santander.

Árið 1950 hóf fjölskyldan svo framleiðslu og sölu á eigin fiskmeti og sinntu því allt til ársins 1970. Angelachu hélt eftir það áfram að gera sínar eigin ansjósur, sem urðu afar vinsælar. Barnabörnin, sérstaklega Silvia sem nú veitir Conservas Angelachu forstöðu, lærðu handverkið af ömmu sinni.

Conservas Angelachu hóf starfsemi árið 1999 og framleiðir nú um fjörutíu mismunandi vörur sem seldar eru víða um heim. 

Við erum sérstaklega hrifin af Bouqerones sem er sannkallað spænskt lostæti. Um er að ræða ansjósur sem hafa verið marineraðar í ediki í nokkra klukkutíma áður en þeim er pakkað í dósir með olíu og salti. Bouqerones er vinsælt sem tapas eða lystauki með bjór eða hvítvíni.

LA BRÚJULA

LA BRÚJULA

Hjá La Brújula eru gæði sjávarfangsins í fyrirrúmi. Starfsfólkið gerir miklar kröfur þegar það er keypt á mörkuðum og gætt að hverju smáatriði. Einungis er notað galisískt sjávarfang og fiskur frá Biskajaflóa.

Þau lifa á sjónum og telja sig skuldbundin til þess að ganga vel um þessa auðlind.

Engar vélar eru notaðar til að verka eða pakka sjávarfanginu. Hér er allt gert með höndunum. Það er sérvalið eftir stærðum, verkað, hreinsað og raðað einu í einu í dósirnar. Í hverju skrefi er sérstaklega gætt að hreinlæti og hitastigi.

Starfsfólkið hjá La Brújula þekkir ekki rotvarnarefni, þráavarnarefni, bindiefni og sætuefni. Þau nota einungis lauk, papriku, ólífuolíu og önnur náttúruleg hráefni.