François Carillon

Carillon-fjölskyldan hefur stundað vínrækt allt frá árinu 1520. Eftir að hafa starfað hlið við hlið föður síns og bróður á hjá Domaine Louis Carillon í áratugi, stofnaði François sína eigin víngerð árið 2010. Í dag er hann talinn einn fremsti ræktandi svæðisins.

Hugmyndafræði François Carillon byggir á þeirri sannfæringu að góð vín verði til á ekrunni en ekki í kjallaranum. Ekrurnar, sem spanna um 16 hektara í Puligny-Montrachet, Chassagne-Montrachet og Saint-Aubin, eru ræktaðar af mikilli natni. Hér hefur ekki verið notaður illgresiseyðir síðan 1992 og illgresi fjarlægt með plægingu, ýmist með dráttarvélum eða hestum í viðkvæmustu ekrunum, til að lofta um jarðveginn og örva ræturnar til að leita dýpra í kalksteininn.

Puligny-Montrachet

Líklega er við hæfi að hefja greinina á að hugtakaútskýringu Halldórs Laxness sem útskýrði: „Þegar kýrin veður yfir keldu, lyftir hún upp halanum. Það er aristókratismi.“

Þorpið Puligny-Montrachet hefur yfir sér einhverja hefðaráru, aristókratískt í alla staði. Segja má að það sé einnig nokkuð lýsandi fyrir vínin sem þaðan koma. Ég man eftir þremur gistihúsum og jafn mörgum veitingastöðum auk eins vínbars. Hvort heldur er að morgni eða að kvöldi má segja að manni bregði ef maður mætir manni á götu úti í Puligny. Frægasta vínhús bæjarins er Domaine Leflaive sem átt hefur sínar hæðir og lægðir í gegnum tíðina og lifir á fornri frægð sem a.m.k. réttlætir að einhverju leyti nokkuð hátt verð. Af öðrum víngerðarhúsum í efsta laginu má nefna Íslandsvinina Etienne Sauzet og Francois Carillon sem jafnframt eru í fremstu röð. Þorpið stendur á milli Chassagne-Montrachet í suðri og Meursault í norðri.

Sérstaða vínræktunar almennt í Búrgúndí felst í að jarðnæði er afar takmarkað en eftirspurn því sem næst ótakmörkuð. Af því leiðir að bændur neyðast til að keppa í gæðum því öfugt við hvernig háttar til á Íslandi fást engar niðurgreiðslur á framleiðslu (eingöngu lítilsháttar ræktunarstyrkir eftir flatarmáli ræktarlands). Takmarkað jarðnæði lýsir sér m.a. í að oft skiptist eignarhald á ekrum niður á tugi bænda sem aftur þýðir að hér er engin stærðarhagkvæmni til staðar og vínin í raun ekki seld í skilningi þess hugtaks heldur úthlutað einu sinni á ári sem aftur kallar á nokkurs konar áskriftarfyrirkomulag til neytenda.

Þar sem öll flokkun vína í Búrgúndí byggir á ekrum og þorpum er vert að geta þess að  vatnsyfirborð þorpsins er nokkuð lágt þannig að í því eru engir kjallarar. Sú staðreynd þýðir að vínviður á láglendisekrum þarf ekki að róta sig eins djúpt eftir vatni eins og háttar t.d. til um í hinum aðliggjandi þorpunum. 

Sagt er að til að ná gæðum í efsta flokki þurfi vínviðurinn að þjást - þurfi að hafa fyrir lífinu - kannski ekki ósvipað og háttar til með okkur mannfólkið. Önnur samlíking við mannskepnuna er að hækkandi lífaldur gefur af sér minna magn þó svo að gæði aukist eftir því sem plantan nær að róta sig dýpra í jarðveginum. Sú staðreynd skýrir að vínviður á láglendi í Puligny stendur sambærilegum ekrum í Chassagne og Meursault ekki framar þó svo að ekrurnar ofar í hlíðinni kunni að vera í uppáhaldi hjá mörgum sem gera kröfur um besta mögulega Chardonnay sem heimurinn getur boðið upp á.

Fyrir utan Grand Cru ekrurnar eru bestu ekrur þorpsins (sem flokkast sem fyrsta flokks, ,,Premier Cru”) Caillerets, Combettes, Pucelles og Clavaillon. Um vínin má segja að þau bestu gefi af sér tóna um hvítar ferskur í eftirbragði.

ÆVILÖNG RÉTTINDI

Ágæti vínunnandi.

Þeir sem kaupa vín í 2023 árganginum - sem eru eðli máls samkvæmt í takmörkuðu upplagi - munu hljóta ævilöng úthlutunarréttindi á vínum frá Francois Carillon. Nú er tækifæri til að tryggja sig í sessi.

Santé!