Fara í efni

DOMAINE ARLAUD

DOMAINE ARLAUD

DOMAINE ARLAUD

Óumdeilt er að Arlaud er eitt af bestu víngerðarhúsunum í Morey-Saint-Denis. Hér er afturhvarf til fortíðar þar sem köfnunarefnisáburði, skordýraeitri og illgresiseyði hefur verið úthýst frá vínræktuninni allt frá árinu 2004. Næsta skref var svo stigið árið 2009 þegar skipt var yfir í lífeflda ræktun - "biodynamique".

Hér neyðast bændur til að keppa í gæðum sem er ekki bara til komið vegna þess að jarðvegurinn er einstakur fyrir Pinot Noir því að auki er jarðnæði afar takmarkað og því til mikils að vinna.

Augljóslega er hér hrepparígur og gleðjast bændur óspart ef gestkomendur taka vín þorpsins fram yfir nágrannana í Gevrey-Chambertin.

Fegurðin ristir grunnt

Fegurðin ristir grunnt

Við fyrstu sýn mætti halda að vel snyrtar vínekrur (án ,,illgresis") væru vísbending um vandaða ræktun en það er oftast vitnisburður um ósparlega notkuna á gróðureyði. Samkeppni yfirborðsgróðurs við vínviðinn um vatn og næringu neyðir hinsvegar vínviðinn til að róta sig dýpra í gegnum marglaga jarðlög frá forsögulegum tímum. Eitt af því sem talið er vera skaðlegt fyrir náttúrulega jarðvegsflóru er þjöppun jarðvegsins sem þar að auki eykur á jarðvegseyðingu og takmarkar náttúrulega flóru lífvera sem eiga búsvæði undir yfirborðinu og þjóna þar sínum tilgangi.

Til að bregðast við slíku má nefna sem dæmi að að ekrurnar eru plægðar með hesti í stað dráttarvélar sem þjappar jarðveginn meira.

Hér eru það Nougat og Oka sem vinna óeigingjarnt á ökrunum í skiptum fyrir fæði og húsnæði.

Augljóslega má sjá mikinn mun á jarðveginum auk þess sem vínviðurinn braggast betur.

Plæging með hestafli er hluti af heildrænni nálgun á ræktuninni sem er mikilvægasti þátturinn. Sjálf víngerðin er minna atriði því þar er inngripum haldið í lágmarki enda á hin endanlega afurð í flöskunni að endurspegla þann jarðveg sem vínviðurinn sprettur úr og það veðurfar sem ríkir hvert sumar.