HVÍT OG RAUÐ JÓL
Í hug fólksins koma jólin ekki fyrr en jólaskipið kemur til hafnar með vistir. Þannig er siglingin yfir hafið með Búrgúndarvínin og kampavínin hluti af fólkinu sjálfu, persónuleg fylgja þess.
Það er sérstök hátíð þegar jólaskipin koma. Þá er allt krökkt af fólki á bryggjunni, allir koma til að bjóða jólavínin velkomin og lúðrasveitin leikur jólasöngva.
Veðurfræðingar landsins, bæði menntaðir og ómenntaðir, keppast nú um að spá fyrir um hvort jólin verði hvít eða rauð og fylgir þessum vangaveltum óhjákvæmilega óvissustig. Santé er með lausnina á þessu vandamáli eins og svo mörgum öðrum en hjá okkur eru jólin bæði hvít og rauð.
DOMAINE TESSIER
Arnaud Tessier er víngerðarmaður sem leggur alla áherslu á gæði fram yfir sýndarmennsku. Bestu vín Burgundy, eins og hans, eru keypt en ekki seld.
Hann vinnur náið með eiginkonu sinni, Catherine, sem er reyndur víngerðarmaður eins og hann sjálfur. Saman rækta þau ekrurnar með svo mikilli natni að nágrannar líkja þeim við skrautgarða. Þessi vandvirkni skilar sér í framúrskarandi vínum sem endurspegla karakter og fágun héraðsins.
ANNE & HERVE SIGAUT
Anne & Herve Sigaut gera vín í Chambolle-Musigny.
Þau rækta vínvið á um 7 hekturum með lífrænum aðferðum. Þau nota engin heilknippi, þ.e. þau fjarlægja alla stilka af vínberjaklösunum áður en gerjunin hefst en að nota tiltekið hlutfall stilka í víngerðinni hefur notið vaxandi vinsælda í Búrgúndí. Að nota engin heilknippi gæti þýtt að vínin verði mýkri og með hreinni ávöxt en það er e.t.v. það sem vín frá Chambolle-Musigny eiga að bera með sér?
Vínin frá Anne & Herve endurspegla sannarlega uppruna sinn frá Chambolle-Musigny en vín þaðan eru oft sögð vera kvenlegust allra Búrgúndívína.
AURELIEN VERDET
Hendurnar á okkur hverfa inn í lófann á Aurelien Verdet þegar við heilsum honum í víngerðinni sem staðsett er í Arcenant. Hann er nýkominn af ekrunum þar sem honum finnst skemmtilegast að vera. Hann ræktar vínvið á ekrum í mörgum þorpum þar á meðal Nuits-Saint-Georges, Vosne-Romanée, Marsannay og Fixin.
Hann framleiðir svo tvö af mest seldu inngangsvínum Sante.is: Bourgogne Hautes-Côtes de Nuits Le Prieuré og Bourgogne Lutenière. Það síðarnefnda, sem er af ekru í Vosne-Romanée, hefur vakið verðskuldaða athygli, að hinu fyrrnefnda ólöstuðu. Þrátt fyrir að vera inngangsvín (bourgogne) má segja að það standi sig langt umfram sína flokkun – sannkölluð vörusvik í jákvæðum skilningi.
La Prieurée er heimaekra Verdet sem hefur verið lífrænt ræktuð síðan 1971 (sem þótti skrítið fyrirbæri í þá daga).
Nýjasti árgangurinn er alveg frábær, vínin einstaklega ljós að lit og aðgengileg.
DESAUNAY-BISSAY
Domaine Desaunay-Bissey er lítið fjölskyldurekið vínhús staðsett í Flagey-Echézeaux í Burgundy. Húsið var rekið af Bruno Desaunay í samstarfi við eiginkonu sína, Marie-Christine Bissey. Næsta kynslóð hefur nú tekið við og hefur sonur þeirra hjóna haldið uppi rekstrinum á seinustu árum. Hluti ekranna er í eigu fjölskyldunnar, þar á meðal nokkrar virðulegar gamlar vínekrur í Echézeaux og Grands Echézeaux. Fyrstu árgangarnir voru framleiddir árið 1975.
JEAN-CHARLES FAGOT
Fagot-fjölskyldan hefur búið í þorpinu Corpeau, rétt við Chassagne-Montrachet, síðan 1860. Jean-Charles Fagot er af fimmtu kynslóð víngerðarmanna en hann tók við rekstrinum á tíunda áratugnum.
Auk þess að stunda vínrækt lærði Jean-Charles tónlist og starfaði við upptökur og sjónvarpsframleiðslu í París og Los Angeles áður en hann sneri aftur heim. Árið 1998 stofnaði hann veitingastaðinn Auberge de Vieux Vigneron, sem við reynum að snæða á í hverri Búrgúndíferð. Þar eru steikurnar grillaðar yfir opnum eldi í miðjum matsalnum. Ekki er vitað hvort byggingarfulltrúinn í Corpeau hafi tekið húsnæðið út.
Jean-Charles spilar tónlist í vínkjallaranum fyrir vínið sitt, einkum klassísk verk, meðan það þroskast á eikartunnum. Hann trúir því að tíðni tónlistarinnar hjálpi vínunum að anda betur og að hún auki gæði þeirra.
LIGNIER-MICHELOT
Virgile Lignier, sem rekur víngerðarhúsið Lignier-Michelot, er einn af merkustu sonum Morey-Saint-Denis, þorps staðsetts milli Chambolle-Musigny og Gevrey-Chambertin. Virgile framleiðir vín úr öllum þessum svæðum, sem undirstrikar einstök blæbrigði þeirra. Vín hans eru þekkt fyrir að vera ljúffeng ung, sem gerir það að verkum að fáir geyma þau til að njóta þeirra á hátindi eftir 4–8 ár.
Hjá Lignier-Michelot er ný eik aldrei meira en 30%, og heilknippi er notað í 70–100% tilvika.
Krúndjásnin eru Grand Cru-vínin Clos St. Denis og Clos de la Roche, en Faconnières 1er Cru, rétt fyrir neðan, stendur þeim nærri í gæðum. Eitt af bestu þorpsekrunum eru Rue de la Vergy, en Chambolle og Gevrey-vínin eru engu síðri, eins og dómar vínsérfræðinga sýna.
JEAN-BAPTISTE JESSIAUME
Jean-Baptiste Jessiaume er víngerðarmaður frá Burgundy sem á rætur í göfugri víngerðarfjölskyldu með langa sögu í héraðinu. Hann starfaði lengi hjá fjölskyldufyrirtækinu Domaine Jessiaume, en hóf svo að gera vín upp á eigin spýtur. Áhersla er lögð á sjálfbæra ræktun og lágmarks inngrip í víngerðarferlinu til að láta jarðveg og uppruna njóta sín.
VILMART & CIE
Vilmart & Cie er franskt fjölskyldufyrirtæki sem hefur framleitt sérstæð kampavín í fimm kynslóðir frá árinu 1890. Eitt af einkennum stórkostlegra vína er að þau flokkast sem matarvín, henta tilteknum mat, já og jafnvel stað og stund en ekki bara sem fordrykkjarvín.
Vínin frá Vilmart eru eindregið ætluð til þess að njóta með mat (þó eiginlega ekki með eftirréttum) þó svo að þau séu auðvitað ljúffeng líka ein og sér.
Hér eru þrúgurnar (Pinot Noir og Chardonnay) pressaðar upp á gamla mátann og allt vín þroskað á eikarámum og malo/lacti gerjun fyrirbyggð sem eykur á ferskleika.
EGLY-OURIET
Francis Egly tilheyrir fyrstu kynslóð ræktunarhúsa. Hann er þekktur fyrir fullkomnunaráráttu frá vínrækt til víngerðar. Öll framleiðsla er lífræn, með náttúrulegu geri og án malo-lactic gerjunar, sem tryggir ferskleika. Tíminn er lykilatriði – víngerðin tekur að meðaltali 7 ár, og berin eru tínd seint fyrir þroskað bragð án sykrunar. Vínin, gerð úr yfir 70 ára gömlum vínvið, flest fá að sjá innan í eikartunnu.
DRAPPIER
Fyrir þá sem vantar auka réttlætingu fyrir góðum vínsafa má benda á að Champagne Drappier er nú fyrsta kampavínshúsið sem vottað er kolefnishlutlaust. Nánast allt rafmagn kemur úr sólarrafhlöðum, bílar eru rafknúnir og hestar notaðir að verulegu leiti á ökrum. Við hjá Santé erum miklir aðdáendur efnafræðinnar - nema þegar kemur að víngerð.
LAHERTE-FRÉRES
Með hæfilegri einföldun má skipta kampavíns framleiðendum í tvo hópa, ræktunarhús sem gera vín af eigin ekru(m) og svo samlagshúsin stóru sem frá fornu fari hafa í senn ræktað en að mestu leyti keypt þrúgur að frá bændum ekki ósvipað og háttar til með hjá íslenskum kolllegum þeirra. Eitt af megin markmiðum ræktunarhúsanna er að gera vín sem endurspegla jarðvegsaðstæður á hverjum stað á meðan að samlagshúsin keppast við að blanda víðs vegar að vín til að gera sinn hús stíl.
Fyrir þá sem vilja lifa á brúninni og prófa eitthvað alveg nýtt í kampavínum, mælum við með Petit Mesliner frá Laherte Freres sem er afar sjaldgæf þrúga en Aurelien telur að gæti átt upp á pallborðið ef áætlanir íslendinga um kælingu jarðar með notkun áfastra plasttappa, renna út í sandinn og jörðin heldur áfram að hlýna. Vínið er einstaklega ferskt og ljúffengt með snert af suðrænum ávöxtum í eftirbragði, jafnvel ananas og gæti því auðvitað parast vel með pizzum með því umdeilda áleggi.
Einnig mætti nefna nýtt vín frá Laherte sem er ósykrað, Brut Nature CRAIE, Chardonnay án súlfíts sem fær fulla malolactic gerjun og er því mýkra og kremaðra í samanburði við hitt samnefnda vínið sem við höfum verið með.