Fara í efni
EGLY-OURIET

EGLY-OURIET

Francis Egly flokkast sem fyrsta kynslóð svokallaðra ræktunarhúsa, í hópi með Jacques Selosse. Karlinn er lúsiðinn í orðsins fyllstu merkingu en það sem Francis skortir í útgeislun bætir hann upp með fullkomnunaráráttu allt frá vínrækt yfir í víngerð. Hér kemur efnaverkfræðin hvergi nærri, allt lífrænt, einungis náttúrulegt ger notað og malo/lactic gerjun er hindruð til að tryggja ferskleika. Raunar mætti flokka tíma sem eina íblöndunarefnið sem er hvergi til sparað því víngerðin tekur að meðaltali 7 ár. Ávallt er tínt seint í lok ræktunartímans þegar berin hafa náð fullum þroska og því lítil sem engin sykrun.

Þess má geta að svo mikill tími fer í víngerðina að ekki hefur enn verið hægt að gera heimasíðu enda eru vínin ekki seld - bara keypt af þeim sem hafa þekkingu til.

Flest vínin eru gerð í eikartunnum sem gefa þeim kraft en á móti kemur fágun úr afar gömlum vínvið sem er að meðaltali yfir 70 ára. Líklega mætti lýsa vínunum sem járnhnefa í silki hanska.