Nýtt vín frá hinum nýlátna framsækna en íhaldssama Alejandro Fernandez. Frænkurnar, barnabörn hans, gera þetta vín úr þrúgum af beztu skikum (númer 10 og 11 = MXI) bezta víngarðs á Pesquera-fjalli (eitthvað Biblíulegt við þetta?).
Dökkrauðfjólublátt sem er einkenni Ribera del Duero. Konfektkassi í lykt, sæt kirsuber, dökkt súkkulaði, karamellubrjóstsykurinn dæmigerði, smávegis sviðið greni {einkenni Pesquera} og vottur af kryddi, tarragon? Feit og þykk en fersk byrjun, munnfylli af mjúkum tannínum, kirsuber, smá appelsína og þroskuð bláber. Vanir menn gizkuðu á Kaliforníu í blindu smakki.