Fara í efni
Kavíar

Kavíar

Fáar lystisemdir eru jafn fágætar og eftirsóttar eins og alvöru kavíar úr styrjuhrognum. Öfugt við ýmis þekkt heiti á borð við kampavín eða koníak, sem bundin eru við að varan komi frá ákveðnu landsvæði, hefur kavíar úr styrjuhrognum aldrei verið varinn gegn eftirlíkingum og því er erfitt fyrir neytendur að átta sig á hvað er ekta og hvað ekki. Íslenski framburðurinn á kavíar virðist svipa nokkuð til „khavjar“ eða „kraftkaka“ frá tímum Aust-Rómverska keisaradæmisins.

Hjólið fundið upp... aftur

Hjólið fundið upp... aftur

Því er oft fleygt að óþarft sé að finna upp hjólið, sem kann að vera eitthvað til í - nema fyrir þann sem var fyrstur. En stundum getur fólki yfirsést einfalt notagildi hringsins eins og til dæmis að gera hringlaga brauðsnittur undir styrjuhrognin. Ristað Brioche brauð er auðvitað mun hentugra undirlag undir þessa yndislegu sjávarafurð af hinni (ekki kannski svo smáfríðu) styrju heldur en skraufþurrt blinis bragðbætt með rotvarnarefnum. Brioche brauðið er ævaforn uppskrift frá árinu 1404 og gefur brakandi en fituríkt smjörbragð sem að okkar mati er allt og sumt sem til þarf til að gera fullkomna máltíð. Okkur þykir laukur og sýrður rjómi ekki eiga erindi við styrjuhrogn en hverjum þykir sinn fiskur fagur. Í raun má líta styrjuna sem nokkurs konar kaskótryggingu fyrir gott matarboð því það skiptir einfaldlega engu máli hvað kemur á eftir.

Hér er hægt að fá útstungumót - við notum 5 cm mót. Og þeir sem vilja baka sitt eigið Brioche brauð geta smellt hér

Hefðbundari hringir

Hefðbundari hringir

Það má líka reiða fram styrjuhrogn á hefðbundnari hringlaga kökum; blinis. Þessi uppskrift er frá Hákoni Örvarssyni.

Blinis

450 ml mjólk
7 gr þurrger
8 gr sykur
200 gr hveiti
Smá salt
30 gr bráðið smjör 
2 egg (hvítur og egg)

  1. Velgið mjólk örlítið og bætið við þurrgeri.
  2. Hrærið saman þurrefnum og blandið svo í framhaldi við mjólkina.
  3. Plastið skálina og leyfið að hvíla við stofuhita í 1 klst.
  4. Bætið við eggjarauðunum og bráðna smjörinu.
  5. Stífþeytið eggjahvíturnar og blandið þeim að endingu saman við blinis deigið.
  6. Steikið litla klatta á pönnu og berið fram með sýrðum rjóma og kavíar (athugið að klattarnir mega vera minni en á myndinni).
Ítarefni

Ítarefni

Fyrir áhugasama er óhætt að mæla með bókinni „Caviar - A history of desire“ eftir Peter G. Rebeiz, forstjóra hins sögufræga Caviar House sem er einn stærsti og frægasti dreifingaraðili styrjuhrogna. Í bókinni er rakin verslunarsaga þessa fjölskyldufyrirtækis og byrjar á skemmtilegri lýsingu á fyrsta viðskiptafundi höfundar, þá 5 ára gamall, þegar hann er leiddur af föður sínum, George Rebeiz, á fyrsta viðskiptastefnumót þeirra feðga við heldur óvandaðan persneskan kavíarkaupmann í París. Tilgangur fundarins var að sannreyna gæði á pöntun upp á 40 kg sem senda átti til Kaupmannahafnar. Eftir nánari athugun uppfylltu einungis 10 kg gæðakröfur feðganna.

Í bókinni er hreinskilnislega rakin sorgarsaga spillingar veiðiþjófnaðar og ofveiði sem leiddi af sér hrun styrjustofnsins. Eitt sinn fékk Rebeiz nafnlausa hringingu frá konu sem vildi kaupa mikið magn af fágætum hvítum hrognum sem fyrirtækið hafði nýverið kynnt. Skilyrðið var að varan yrði merkt með upphafsstöfunum „B.Y.“ Ekki fékkst uppgefið hver kaupandinn væri né heldur fyrir hvað stafirnir stæðu. Uppgjörið fór svo fram gegn greiðslu 25.000 Bandaríkjadala í reiðufé. Viku síðar mætti svo starfsmaður sendiráðs Rússlands og sótti sendinguna en á þeim tíma réð Boris Yeltsin ríkjum í Kreml — a.m.k. að nafninu til.

Styrjuhrogn í París

Styrjuhrogn í París

Fyrir þá sem eiga leið um París er óhætt að mæla með hinum einstaka fiskveitingastað Prunier á Avenue Victor Hugo sem sérhæfir sig í framreiðslu styrjuhrogna. Staðurinn er innréttaður í Art Deco stíl og hefur verið friðaður enda með fegurstu veitingastöðum borgarinnar.