Fara í efni

CHIANTI

Framtíðin í fortíðinni

Framtíðin í fortíðinni

Velkomin í heillandi heim Chianti sem þekkt er fyrir samnefnd rauðvín sem að grunni til eru gerð úr þrúgunni Sangiovese. Í Chianti fyrirfinnst óspillt náttúra og töfrandi andrúmsloft. 

Leirkenndur jarðvegur er einkennandi fyrir Toscana að undanskildu Chianti. Hérna er sandsteinn og galestro (leirkennt og mjúkt grjót sem klofnar í þunnar skífur með tímanum) ásamt hörðum hvítum kalksteini sem kallast albarese, algeng blanda. Þessi einstaka staðsetning er paradís á jörð fyrir vínframleiðslu en jarðvegurinn er jafnframt afar mismunandi milli hinna 11 mismunandi svæða innan Chianti Classico flokkunarinnar.

Jarðvegurinn í Chianti gefur af sér fínleg og fáguð vín sem á sama tíma eru afar fjölþætt. Sangiovese þrúgan er hjarta Chianti vínanna en þau eru oftast léttari á fæti heldur en t.d. Brunello di Montalcino vínin úr Toscana. 

Í bókinni Vino segir Joe Bastianich frá því að sum bestu vín sem hann hafi smakkað á sínum ferli hafi verið Chianti og líka sum af þeim verstu. Fyrir þá sem kynntust Chianti í bastklæddum keilulaga flöskum á síðustu öld getum við fullvissað viðkomandi um að nú er öldin önnur en þegar hin lamandi hönd ríkisafskiptanna keyrði upp framleiðslu með ó-byggðastefnu sem tók ekki til gæða heldur magns. Á þeim tíma fólst söfnunargildi Chianti vína helst í að nota flöskurnar sem kertastjaka frekar en að geyma til að ná fram gæðum með þroska.

Það sem kemur fyrst á óvart þegar maður ferðast hér um er hve svæðið er strjálbýlt og að einungis 13% af lands er undir ræktun allt umlukið skóglendi byggt villisvínum og dádýrum sem valda bændum talsverðum búsifjum og eru það helst úlfar sem treyst er á að halda stofni viltra dýra í skefjum. 

Ef vel er rýnt í myndina úr skóginum má sjá villisvín sem varð á vegi okkar á ferðalagi um Chianti.

Framleiðendurnir okkar stunda allir lífræna ræktun sem þýðir að vínin eru laus við leyfar af skordýraeitri og illgresiseyði. Slík ræktun tryggir til lengri tíma litið að vínviðurinn róti sig dýpra í gegnum fleiri jarðlög og gefi þannig af sér fjölþættari vín auk þess að þola betur þurrkatíð. Það líklega kemur fáum á óvart að fyrir valinu hjá okkur hafi orðið framleiðendur sem leitast við að framleiða fáguð og fínleg vín án kemískra bætiefna, semsagt gamaldags víngerð en með nútíma áherslum.

Fyrir þá sem vilja upplifa raunverulega sveitasælu er vel hægt að mæla með ferðalagi hingað og jafnvel hjólandi líka þar sem margir framleiðendur bjóða upp á heimsóknir og sumir hverjir stunda fínan veitingarekstur á afar sanngjörnu verði.

Í hugum sumra er hið eina sanna Chianti Classico eingöngu gert úr Sangiovese, nokkuð sem er krefjandi ef markmiðið er að ná fram ljúffengri sætu samhliða sýrunni sem tryggir ferskleika vínanna. Sangiovese er hinsvegar talin vera sú þrúga sem miðli einna best einkennum hverrar upprunaekru allavega ef magni og inngripum í vínverðina er haldið í lágmarki. Oft er hinsvegar gripið til þess ráðs að blanda allt að 20% Merlot, Colorino, Canaiolo og fleiri þrúgum við, sér í lagi ef leitast er við að mýkja áferð eða ná betri sætu. Með fáeinum undantekningum virkar Sangiovese best með þrúgum sem eiga uppruna sinn að rekja til Chianti en Merlot og aðrar aðkomuþrúgur eiga það til að gefa vínunum of mikinn alþjóðlegan blæ og hylja upprunaeiginleika vínanna.

Ekki ósvipað og háttar til í Burgundy er héraðinu skipt í nokkur undirsvæði sem hvert hefur sína eiginleika út frá jarðfræði. Annað sem skiptir máli er að samfara hlýnun njóta svalari ekrur sín betur, ekrur sem jafnvel áður fyrr fengu ekki næga sól og/eða stóðu hærra.

Svæðin sem heyra undir UGA flokkunarkerfið (Unita Geografiche Aggiuntive) eru 11 en okkar framleiðendur rækta sinn vínvið í þremur þeirra; Radda in Chianti, Lamole og San Casciano.

Það myndi líklega æra óstöðugan að leggja á lesendur að útskýra flokkunarkerfið á Ítalíu í heild - a.m.k. í fyrsta kasti. Þeim sem vilja kafa dýpra bendum við á að bókin Chianti Classico: The Atlas of the Vineyards and UG’s fæst í netversluninni. Við látum duga í þágu þessara umfjöllunar að vísa í þennan pýramída sem segir meira en mörg orð án þess að eyðileggja hina rómantísku ítölsku stemningu sem við förum alveg að koma að. Að þessu sinni einbeitum við okkur að gulu og appelsínugulu hæðunum en tökum jafnframt inn eitt einstaklega gott vín á jarðhæðinni. Að okkar mati hið besta í sínum verðflokki.

Nánar tiltekið er svo hægt að draga saman Chianti Classico eins og myndin hér sýnir.

Á ferðalagi okkar um Chianti í maí 2023 heimsóttum við 12 framleiðendur og nú eru kynntir til leiks fjórir þeirra. Vín frá þremur þeirra eru þegar komin í sölu á Sante.is en sending frá þeim fjórða er væntanleg í næstu viku.

PRUNETO

PRUNETO

Okkar fyrsta heimsókn er til Pruneto í Radda in Chianti, sem er svæði sem oftast gefur af sér vín í dekkri kantinum en hér er undantekning því vínin eru mjög fáguð. Pruneto er minnsta víngerðarhús sem við höfum heimsótt því alls eru einungis 10.000 flöskur framleiddar í tveimur gerðum, Chianti Classico og Chianti Classico Reserva. Þrátt fyrir afar jákvæða umfjöllun í heimspressunni reyndist hægt að fá eitt bretti sem var pantað á staðnum. 

Giuseppe Lanza keypti Pruneto seint á 6. áratug síðustu aldar en nú er það sonur hans, Riccardo, sem situr við stjórnvölinn. Hjá honum starfar bara einn maður - hann sjálfur. Víngerðarstíllinn er í íhaldssamari kantinum og Riccardo notar hvorki skordýraeitur né tilbúinn áburð. Vínekrurnar snúa í Suðvestur og Suður og eru 450-500 metra yfir sjávarmáli. Vínviðurinn er 20-50 ára gamall. 

Vínin frá Pruneto er hægt að forpanta og verða þau til afgreiðslu 26. júlí nk.

Vínin

  • 2020 Pruneto Chianti Classico DOCG. 95% Sangiovese og 5% Merlot. Gerjun fer fram í stórum steinsteyptum tönkum og vínið fær svo að liggja á 30 hl. eikartunnum í tilskilinn tíma. Ólíkt öðrum Chianti vínum sem blönduð eru með Merlot er hér ekki að finna neinn alþjóðlegan blæ. Vottað lífrænt.
  • 2019 Pruneto Chianti Classico Riserva DOCG. 95% Sangiovese og 5% Merlot. Gerjun fer fram í stórum steinsteyptum tönkum og vínið fær svo að liggja á 30 hl. eikartunnum í tilskilinn tíma. Ólíkt öðrum Chianti vínum sem blönduð eru með Merlot er hér ekki að finna neinn alþjóðlegan blæ. Vottað lífrænt.
CIGLIANO DI SOPRA

CIGLIANO DI SOPRA

Þrátt fyrir úrhellis rigningu var líklega ánægjulegasta heimsókn okkar til Cigliano di Sopra sem staðsett er í San Casciano í Val di Pesa. Þetta Chianti Classico svæði er það nyrsta af þeim öllum en í þessum ævaforna árfarvegi eru ávalar steinvölur fyrirferðarmiklar í jarðveginum. Hér mætist gamall og nýr heimur því víngerðin hér á rætur aftur til 14. aldar en er nú í höndum líklega yngstu víngerðarmanna sem við höfum hitt á okkar ferðum. Maddalena er afkomandi eigenda jarðarinnar en hún nýtur liðsinnis skólafélaga sinna við vínræktina sem öll hafa mikla ástríðu fyrir víngerðinni. Að hluta til hefur miklum húsakosti verið breytt í ferðaþjónustu fyrir hópa eða fjölskyldur til að leigja. Unga víngerðarfólkið tekur vel á móti okkur en tómar flöskur í kjallaranum koma upp um þau sem áhugafólk um Burgundy. Í garðinum eru ræktaðar yfir 100 yrki af sítrónum og ljóst að hér eru á ferðinni miklir náttúruunnendur sem nota hvorki eitur né áburð og ræktunin er ekki einungis lífræn heldur líka lífefld. Gerjunin fer fram í stáltönkum og vínið fær svo að liggja á frönskum eikartunnum. Hjá Cigliano di Sopra eru framleiddar u.þ.b. 21.000 flöskur á ári.

Vínið

  • 2021 Cigliano di Sopra Chianti Classico DOCG. 100% Sangiovese. Gerjunin fer fram í stáltönkum og vínið fær svo að liggja á frönskum eikartunnum. Vottað lífrænt og lífefld ræktun.
PRINCIPE CORSINI

PRINCIPE CORSINI

Stærsta húsið okkar í Chianti er Principe Corsini 49 hektarar af vínvið og 70 hektarar af ólífuræktun. Húsið hefur verið í eigu sömu fjölskyldu síðan 1360. Corsini fjölskyldan er ein sú merkasta á Ítalíu en sagan segir að þau geti ferðast frá Flórens til Rómar án þess að víkja af sínum eigin landareignum. Það er mikið lagt í víngerðina en trúin á jarðveginn er aldrei langt undan. Vínin eru lífrænt vottuð og áhersla lögð á að halda öllum inngripum í lágmarki. 

Vínin

  • 2021 Principe Corsini Chianti Classico Le Corti DOCG. 95% Sangiovese og 5% Colorino. Þetta er aðalvín Principe Corsini. Vínviðurinn er í 220-300 metra hæð yfir sjávarmáli. Vottað lífrænt.
  • 2021 Principe Corsini Chianti DOCG. 95% Sangiovese og 5% Colorino. Létt og fínlegt vín sem sýnir hið rétta andlit Sangiovese þrúgunnar. Þetta vín fellur í flokkinn fyrir neðan Chianti Classico þar sem þrúgurnar eru aðkeyptar en víngerðarstíll Principe Corsini er engu að síður í forgrunni. Þetta er vín sem við köllum “best in class” sem þýðir einfaldlega að þetta er það besta sem við höfum fengið í þessum flokki kerfisins.
I FABBRI

I FABBRI

I Fabbri, stofnað 1620 í Lamole sem þekkt er fyrir ilmkennd og frekar ljós vín úr sendnum vínekrum sem standa í 550-650 metra hæð yfir sjávarmáli. Lamole, sem tilheyrir Greve in Chianti, er minnsta svæðið í Chianti Classico en gæti verið það áhugaverðasta. Hér örlar oft á kirsuberjum og hindberjum í bragði. Víngerðin er vottuð lífræn. Hér var eitt sinn varðturn til að verjast ásókn nágrannana frá Flórens áður en tókst að sameina landið undir eina yfirstjórn sem líklega var framfaraskref.

Gestrisni Susönnu er einstök. Vínsmökkunin fer fram utandyra en Susanna býður upp á þriggja rétta hádegisverð. Fjölskylda hennar hefur átt jörðina síðan 1600 en fyrstu vínflöskurnar voru framleiddar á búinu árið 1920 en það var ekki algengt á þeim tíma því yfirleitt seldu bændur þrúgurnar til samlagshúsa sem síðan blönduðu þeim öllum saman í einn graut. Vínræktin í Lamole fer oft fram á manngerðum pöllum sem eru búnir til með hlöðnum veggjum því hlíðarnar eru afar brattar. Þessir pallar eru margir margra alda gamlir. Susanna þekkir hverja einustu grein á hverjum einasta vínvið og lýsir því hvernig greinarnar segja sögu jarðvegsins.

Vínin

  • 2021 I Fabbri Chianti Classico DOCG. 100% Sangiovese. Vínviðurinn er í 550-650 metra hæð yfir sjávarmáli og hér er allt vottað lífrænt. Létt og fágað vín sem fær aldrei að sjá eik heldur liggur á steinsteyptum tönkum. Vottað lífrænt.
  • 2021 I Fabbri Chianti Classico Terra di Lamole DOCG. 90% Sangiovese og 10% Canaiolo. Vínviðurinn er í 550-650 metra hæð yfir sjávarmáli og hér er allt vottað lífrænt. Létt og fágað vín sem fær aldrei að sjá eik heldur liggur á steinsteyptum tönkum. Vottað lífrænt.

ÍTALSKI DRAUMURINN

SMELLTU Á HNAPPINN OG FÁÐU MEIRI ÍTALÍU Í ÞITT LÍF

ÍTALÍA