Fara í efni

Elías Blöndal Guðjónsson

14.09.2023

AF SEÐLINUM:
ROK RESTAURANT

MEÐ VINDINN Í SEGLIN

Það er ekkert kuldagjóstur á Skólavörðuholtinu og óhætt að segja að það gusti ekki um gestina á Rok veitingahúsi við Frakkastíg. Umhverfið er í senn notalegt og líflegt. Þegar húsfyllir er á laugardegi gæti verið betra að sitja á efri hæðinni til að njóta betri hljóðvistar. Það kemur þó ekki að mikilli sök að sitja niðri enda gaman að vera í miðju stormsveipsins við barinn. Á ROK eru smáréttir málið og mælt með því að gestir panti 2-3 slíka. Réttirnir sem ritari og sessunautar hans fengu voru allir afar hæfilegir og enginn varð útblásinn. Erfitt er að henda reiður á hvaða matargerðarstíll ræður för á ROK en kannski er bara heiðarlegast að segja að hann sé fjölbreyttur.

Volgur blær strauk vanga fréttaritara þegar afar sanngjarnt verðlagður vínlistinn var skoðaður en þar bar fyrst að garði fyrsta yrki Chablis frá Louis Michel úr ekrunni Tonnerre. Það fæst á sanngjörnu verði og einnig hægt að fá í glasavís. Okkar maður Emanuel Humbert er líka á listanum með sitt Gevrey-Chambertin af gamla vínviðnum. Þá eru ekki margir staðir eftir í bænum sem eiga enn 2016 Nuits-Saint-Georges 1er Cru Boudots frá Aurelien Verdet en það eru líklega bestu kaupin á seðlinum. Fjórða vínið frá Sante.is á ROK er kampavínið Drappier Brut Nature Zero Dosage og verðvaktin slær ekki feilpúst þar.

Ef setja má út á eitthvað í veðrakerfi ROK þá mætti vera meira úrval af bjórum í flösku. Þetta á við á fleiri veitingastofum hér í borg.

Hugtakið ROK er skilgreint af Veðurstofunni sem 24,5 - 28,4 metrar á sekúndu og óhætt er að segja að ROK sé með vindinn í seglin.

Þessi rýni er sjálfstæð og sjálfsprottin skoðanagrein. Hvorki Santé né höfundur fengu greitt fyrir skrifin með neinum hætti..

AF SEÐLINUM

MATUR

VÍNVIÐURINN

BJÓRVAKTIN