Því er oft fleygt í umræðu um áfengismál að ,,áfengisstefna” Íslendinga hafi haft í för með sér minni unglingadrykkju, að aðrar þjóðir líti til Íslands sem fyrirmynd og að allar rannsóknir sanni að núverandi sölufyrirkomulag sé það eina sem geti verið í anda markmiða um lýðheilsu. Því er til að svara að ekkert af ofangreindu á við rök að styðjast. Unglingadrykkja hefur vissulega dregist saman með auknu íþróttastarfi, tölvuleikjum og annari afþreyingu. Fjölgun útsölustaða ÁTVR úr 9 í 52, netverslun frá 2001, greiðslukort eða breyting í sjálfsafgreiðsluverslanir hefur ekki lagt neitt á vogarskálar gegn unglingadrykkju. Engum rannsóknum er til að dreifa um kosti einokunarverslana enda slíkt óyndisfyrirkomulag hvergi verið aflagt í vestrænu landi þannig að hægt sé að mæla breytingu í neyslu. Netverslun er hins vegar hvergi sýnileg neinum nema þeim sem þangað eru komnir til að versla öfugt við sjálfsafgreiðslubúðir sem staðsettar hafa verið í verslanamiðstöðvum, inni í matvöruverslunum, bensínstöðvum og á öðrum fjölförnum verslunarstöðum.